Reglur um lénaskráningu

Eftirfarandi reglur um skráningu léna og stjórnun höfuðlénsins .is gilda frá 17. jan 2020. Einnig eru í gildi þessir viðskiptaskilmálar.

 1. I. Almenn ákvæði, markmið og gildissvið
 2. II. Skilgreiningar
 3. III. Skráning léna
 4. IV. Umskráning léna
 5. V. Vistun léna
 6. VI. Greiðslur fyrir lén
 7. VII. Lokun og brottfall léna
 8. VIII. Læsing léna
 9. IX. Úrskurðarnefnd léna
 10. X. Ábyrgð ISNIC

I. kafli. Almenn ákvæði, markmið og gildissvið.

1. gr.

Internet á Íslandi hf., hér eftir ISNIC, annast skráningu, rekstur og stjórnun landslénsins .is (e. ccTLD) samkvæmt samningi við IANA. Markmið þessara reglna er að tryggja öryggi og skilvirkni í nafnaþjónustu ISNIC við landslénið, ásamt gagnsæi og jafnræði við skráningu .is-léna.

2. gr.

Reglur þessar taka til allra skráninga .is-léna hjá ISNIC og umsýslu þeirra hjá vistunar- og skráningaraðilum eftir því sem við á. Stangist ákvæði reglna þessara á við viðskiptaskilmála ISNIC að einhverju leyti gilda þessar reglur framar viðskiptaskilmálunum.

3. gr.

Skráning léns felur ekki í sér eignarrétt að léninu, heldur einungis ótímabundinn rétt til notkunar á léninu, í samræmi við gildandi reglur ISNIC á hverjum tíma.

II. kafli. Skilgreiningar.

4. gr.

Í reglum þessum merkir:

1. Lén: Auðkenni á Internetinu. Lénnafn má einungis innihalda stafi úr enska stafrófinu, tölustafi og bandstrik og íslensku stafina áéýúíó og þæöð. Lénnafn má ekki byrja eða enda á bandstriki og má ekki innihalda bandstrik í þriðja og fjórða staf. Lénnafn ásamt endingunni .is má ekki vera lengra en 66 stafir, ACE (Punycode) umritun léns með íslenskum stöfum má ekki vera lengri en 59 stafir. Ekki er gerður greinarmunur á stórum og litlum stöfum í léni.

2. Nafnaþjónn: Tölva sem vistar tæknilegar (DNS) upplýsingar um lén.

3. Skráningaraðili: Sá aðili sem skráir lén.

4. Rétthafi: Sá einstaklingur eða lögaðili sem skráður er fyrir léni hjá ISNIC.

5. Tengiliður rétthafa hefur umboð rétthafa til að breyta öllum atriðum er varða skráningu léns og getur m.a. breytt vistun þess, skipt um greiðanda, umskráð lénið yfir á annan rétthafa og lagt það niður.

6. Tæknilegur tengiliður: Sá sem ber ábyrgð á að lén sé tæknilega rétt uppsett á nafnaþjónum.

7. Greiðandi: Viðtakandi reikninga og tilkynninga vegna léngjalda, sem jafnframt ber ábyrgð á greiðslu þeirra.

8. Vistunaraðili: Sá sem vistar DNS upplýsinar um lén fyrir rétthafa. Rekstaraðli nafnaþjóna lénins.

9. DNS Þjónustuaðili: Vistunaraðili sem býður almenningi þjónustu varðandi vistun .is-léna og hefur af því tilefni gert sérstakan samning við ISNIC um skráningu á þeirri þjónustu á vef ISNIC.

10. Rétthafaskrá: Sérstakur gagnagrunnur sem ISNIC heldur, þar sem fram kemur m.a. hver er rétthafi og hverjir eru tengiliðir hvers léns fyrir sig. Rétthafi og tengiliðir léns bera ábyrgð á að réttar upplýsingar séu skráðar í rétthafaskrá ISNIC. ISNIC uppfærir nöfn íslenskra rétthafa og tengiliða samkvæmt þjóðskrá og fyrirtækjaskrá daglega. ISNIC áskilur sér rétt til að uppfæra heimilisföng hjá íslenskum rétthöfum og tengiliðum til samræmis við þjóðskrá eða fyrirtækjaskrá, sé þess óskað.

11. Endurnýjun: Það, þegar rétthafi léns endurnýjar réttindi og skyldur sem fylgja léninu samkvæmt þeim reglum ISNIC sem í gildi eru þegar endurnýjun fer fram.

12. Umskráning: Við umskráningu færast öll þau réttindi og skyldur sem felast í skráningu léns yfir á annan rétthafa.

13. Afskráning: Lén er fjarlægt úr rétthafaskrá ISNIC og tilvísanir í gögn varðandi lénið eru fjarlægðar. Þegar lén er afskráð fellur réttur til lénsins niður og lénið verður laust til skráningar á ný.

14. Uppsögn: Rafræn afskráning léns, sem tengiliður rétthafa eða rétthafi getur framkvæmt.

15. Biðsvæði: Hægt er að skrá lén án þess að tilgreina ákveðinn vistunaraðila og vistast lénið þá á svokallað biðsvæði hjá ISNIC. Rétthafar léna á biðsvæði hafa engan tæknilegan aðgang að léninu.

16. Lokun: Tilvísanir á lén eru fjarlægðar úr höfuðléni en lénið áfram skráð í rétthafaskrá. Við lokun verður lénið óvirkt m.t.t. allrar virkni á Netinu. Lén sem er lokað í 30 daga samfellt er afskráð.

17. Læsing léns: Læst lén heldur tæknilegri virkni sinni, en ekki er hægt að skipta um rétthafa þess.

18. Skráningarskírteini léns. Vefskjalið sem inniheldur skráningarupplýsingar lénsins og birtist þegar léni er flett upp í rétthafaskrá ISNIC.

III. kafli. Skráning léna.

5. gr.

Vilji tveir eða fleiri skrá sama lén, og allir eða báðir uppfylla þau skilyrði sem til þess standa, gildir sú meginregla að fyrstur kemur, fyrstur fær.

6. gr.

Skráningaraðili gengur, fyrir hönd rétthafa, frá greiðslu á fyrsta árgjaldi léns samhliða skráningu þess á vef ISNIC. Skráningaraðili skal hafa hæfi til þess að skuldbinda tilgreindan rétthafa í samræmi við gildandi lög á hverjum tíma.

7. gr.

ISNIC áskilur sér rétt til að hafna skráningu léns séu skilyrði um nafn léns ekki virt eða falli það ekki að hefðum og almennum reglum á Internetinu.

8. gr.

ISNIC getur hvenær sem er krafist gagna sem staðfesta að skráningaraðili uppfylli skilyrði sem gerð eru varðandi skráningu léna.

9. gr.

Skráningaraðili tilgreinir rétthafa þess léns sem hann skráir í samræmi við reglur ISNIC. Rétthafi ber ábyrgð á að notkun lénsins sé í samræmi við gildandi lög og reglur á hverjum tíma. Rétthafi ber ennfremur, ásamt greiðanda, ábyrgð á greiðslu gjalda vegna skráningar og endurnýjunar léns. Rétthafi léns skuldbindur sig til að hlíta niðurstöðum sérstakrar úrskurðarnefndar léna sbr. IX. kafla reglna þessara. Rétthafa léns ber að bæta ISNIC það tjón sem ISNIC kann að verða fyrir og rekja má með beinum hætti til notkunar lénsins.

11. gr.

Eftirfarandi lén eru frátekin og verða því ekki skráð: net.is, com.is, edu.is, gov.is, org.is og int.is.

12. gr.

ISNIC áskilur sér rétt til að hafna skráningu léns á erlendan rétthafa ef upplýsingar um rétthafann eru augljóslega rangar og/eða ófullnægjandi.

IV. kafli. Umskráning léna.

13. gr.

Umskráning á léni felur í sér framsal á léni og rétthafaskipti. Nýr rétthafi þarf að fullnægja reglum ISNIC eins og um nýskráningu sé að ræða. Umskráning er framkvæmd af tengilið fráfarandi rétthafa þannig að nafni og kennitölu rétthafa er skipt út fyrir nafn og kennitölu fyrirhugaðs rétthafa í rétthafaskrá ISNIC. Rétthafabreytingu er eingöngu hægt að gera á vef ISNIC og tengiliður rétthafa eða rétthafi staðfestir á rafrænan hátt, samþykki fyrir breytingunni.

14. gr.

Um umskráningu léna gilda sömu reglur og um skráningu léna skv. III. kafla, eftir því sem við á.

V. kafli. Vistun léna.

15. gr.

Lén þarf að vera vistað hjá vistunaraðila á Internetinu eða á biðsvæði fyrir eða samhliða skráningu þess hjá ISNIC. Uppsetning léns hjá vistunaraðila skal uppfylla þær kröfur sem ISNIC gerir til uppsetningar léna á hverjum tíma og fram koma á vef ISNIC.

16. gr.

Nafnaþjónar (DNS þjónar) léns, staðsettir hjá vistunaraðila, skulu vera skráðir hjá ISNIC áður en lén er skráð.

17. gr.

Ákveði rétthafi léns að skipta um vistunaraðila þess felur hann tengilið rétthafa eða tæknilegum tengilið að framkvæma þá breytingu.

18. gr.

Skráður DNS þjónustuaðili getur breytt vistun léna sem hann vistar.

VI. kafli. Greiðslur fyrir lén.

19. gr.

Afnot af léni miðast að meginreglu við eitt ár í senn. Eindagi árgjalds er afmælisdagur léns ár hvert. Skráningu léns skal fylgja greiðsla.

20. gr.

ISNIC birtir á vef sínum gjaldskrá þar sem fram kemur hvað þjónusta fyrirtækisins kostar hverju sinni.

21. gr.

ISNIC endurgreiðir árgjald fyrsta árs hafi það verið greitt en skráningu hafnað. Aðrar greiðslur vegna léna eru almennt óafturkræfar.

VII. kafli. Lokun og brottfall léna.

22. gr.

Lokun léns hefur í för með sér að tæknileg virkni þess fellur niður og starfsemi á bak við það, s.s. vefsíða og tölvupóstur, verður óaðgengileg rétthafa sem og öðrum. ISNIC lokar lénum í eftirtöldum tilvikum:

 1. Sé reikningur vegna léns ógreiddur á eindaga.
 2. Sé léni ekki haldið við tæknilega, þ.e.a.s fullnægir ekki tæknilegum kröfum ISNIC til vistunar .is-léna, er viðvörun send til tengiliðs rétthafa og tæknilegs tengiliðs lénsins. Sé viðvörun ekki sinnt innan 60 daga frá fyrstu sendingu er léni lokað.
 3. Tilkynni DNS þjónustuaðili ISNIC að hann sé hættur þjónustu við ákveðið lén, svo fremi að lénið hafi verið tekið niður af nafnaþjónum þjónustuaðila.
 4. Reynist upplýsingar um rétthafa léns augljóslega rangar þrátt fyrir ítrekaðar tilkynningar þar að lútandi til tengiliðar rétthafa, getur ISNIC lokað léni viðkomandi.

23. gr.

Frá lokun léns hefur rétthafi 30 daga til að gera viðeigandi ráðstafanir og fá lénið opnað. Hafi lén verið lokað í 30 daga er það afskráð, réttur yfir léni fellur niður og lénið verður laust til skráningar á ný. Tengiliður rétthafa eða rétthafi léns getur sagt léni upp. Í framhaldi af uppsögn er lén afskráð og verður laust til skráningar á ný.

24. gr.

Réttur yfir léni fellur niður ef úrskurðarnefnd léna, Neytendastofa, dómstólar eða annar þartilbær aðili komast að þeirri niðurstöðu að annar aðili eigi betri rétt til lénsins en sá sem skráður er fyrir því í rétthafaskrá.

VIII. kafli. Læsing léna.

25. gr.

Aðilar að ágreiningsmáli um lén, sem þegar er skráð hjá ISNIC, geta að ákveðnum skilyrðum uppfylltum (sjá 27. gr.) farið fram á að ISNIC læsi rétthafaupplýsingum léns sem deilt er um. Sá sem fer fram á læsingu er læsingarbeiðandi og sá sem sæta þarf læsingu er læsingarþoli. Læst lén heldur tæknilegri virkni sinni, en ekki er hægt að skipta um rétthafa þess. Mögulegt er að flytja læst lén milli vistunaraðila og skipta um tengiliði þess.

26. gr.

Læsingarbeiðandi skráir læsingabeiðni rafrænt hjá ISNIC og greiðir læsingargjald skv. gjaldskrá hverju sinni. Samhliða slíkri beiðni þarf að leggja fram afrit af framlögðum kærugögnum til þartilbærs aðila (sjá 27. gr.). Læsingargjald er ekki endurgreitt.

27. gr.

ISNIC tekur til greina beiðni um læsingu léns, sé hún studd gögnum um framlagningu kæru fyrir:

 1. íslenskum dómstólum
 2. neytendastofu
 3. úrskurðarnefnd léna
 4. öðrum aðila, sem á hverjum tíma telst bær til að úrskurða í viðkomandi máli.

28. gr.

Læsing léns gildir í 6 mánuði, en fæst framlengd einu sinni til 6 mánaða án nýrrar umsóknar liggi þá fyrir gögn um að mál sé til meðferðar og að niðurstöðu sé að vænta innan 6 mánaða. Sé deila enn óleyst að tólf mánuðum liðnum þarf læsingarbeiðandi að sækja aftur um læsingu á léninu og leggja fram ný gögn sem sýna að deilan sé enn til formlegrar meðferðar hjá þartilbærum aðila.

29. gr.

Læst lén er sjálfkrafa umskráð á læsingabeiðanda ef læsingarþoli samþykkir að afskrá lénið. Ef læsingarþoli verður ekki við úrskurði eða dómi um að afskrá lénið eða umskrá það á læsingarbeiðanda, getur ISNIC framfylgt úrskurði eða dómi. Lén sem skráð er á læsingarbeiðanda í framhaldi af sátt, dómi eða úrskurði telst nýskráð frá þeim degi sem breytingin er framkvæmd í kerfi ISNIC.

30. gr.

Náist sættir milli aðila meðan á læsingu léns stendur, samþykkir læsingarbeiðandi það rafrænt á vef ISNIC og lýkur þar með læsingu þess sjálfkrafa.

IX. kafli. Úrskurðarnefnd léna.

31. gr.

Á vegum ISNIC starfar sérstök úrskurðarnefnd sem skal skera úr ágreiningsmálum er varða skráningu léna. Nefndin er sjálfstæð og óháð í störfum sínum. ISNIC framfylgir úrskurði nefndarinnar tíu dögum eftir að hann er felldur eða næsta virka dag þar á eftir láti læsingarþoli það undir höfuð leggjast. ISNIC framfylgir ekki úrskurði nefndarinnar hafi dómsmál verið höfðað vegna sama máls eða lögbann verið lagt á notkun viðkomandi léns áður en niðurstaða nefndarinnar liggur fyrir eða áður en sá dagur sem úrskurði hennar átti að framfylgja á rennur upp. Til nefndarinnar má vísa málum sem varða skráningar .is léna.

32. gr.

ISNIC skipar formann nefndarinnar til tveggja ára í senn og skal hann uppfylla hæfisskilyrði héraðsdómara. Formaður úrskurðar einn í málum nema hann telji eðli tiltekins máls og aðstæður að öðru leyti gefa sérstakt tilefni til að úrskurðarnefnd verði skipuð þremur nefndarmönnum við meðferð þess. Skal ISNIC þá skipa tvo nefndarmenn til viðbótar og skal annar þeirra hafa faglega kunnáttu á sviði samkeppnis- og vörumerkjamála og hinn á málefnasviði internetsins og tækni. Ritari nefndarinnar skal vera starfsmaður ISNIC. Ritari hefur ekki tillögurétt né heldur rétt til að hafa áhrif á störf nefndarinnar.

33. gr.

Úrskurðarefndin skal hafa lögsögu til að úrskurða um lén sem skráð eru eða endurnýjuð hjá ISNIC skv. þessum reglum.

34. gr.

Úrskurðarnefndin hefur einungis vald til að kveða á um umskráningu léns hjá ISNIC. Nefndin tekur ekki mál fyrir sem jafnframt eru til meðferðar hjá dómstólum. Þá getur nefndin vísað frá málum sem uppfylla ekki þau skilyrði sem sett eru um kærur til nefndarinnar eða mál sé þannig útbúið, óupplýst eða óljóst að ófært sé að úrskurða í því.

35. gr.

Kæru til úrskurðarnefndarinnar skal fylgja kærugjald. Kæra er ekki tekin til meðferðar fyrr en greiðsla á kærugjaldi liggur fyrir. Gjaldið er óafturkræft.

36. gr.

Kæra til nefndarinnar skal vera skrifleg og send bréflega eða á rafrænu formi til ISNIC merkt Úrskurðarnefnd léna. Í kæru skal eftirfarandi koma fram:

 1. Upplýsingar um kæranda; nafn, kennitölu, heimilisfang, síma og netfang.
 2. Hvaða léni kæran beinist að.
 3. Kröfur kæranda.
 4. Helstu málsástæður.

Kærandi leggur samhliða kæru fram þau gögn, sem hann telur styðja málatilbúnað sinn. Úrskurðarnefnd metur í hverju tilfelli hvort síðar fram komin gögn verði tekin til greina.

37. gr.

Úrskurðarnefnd skal tilkynna gagnaðila um framkomna kæru og láta honum í té framkomin gögn. Gagnaðila er veittur hæfilegur frestur til að koma athugasemdum sínum og gögnum, ef við á, til nefndarinnar. Úrskurðarnefnd er heimilt að afla sjálf þeirra viðbótargagna sem hún telur nauðsynleg.

38. gr.

Málsmeðferð fyrir úrskurðarnefnd er eingöngu skrifleg. Úrskurðarnefndin skal taka afstöðu til atriða er varða form málsins, s.s. hæfis nefndarmanna og frávísunarkrafna. Skal nefndin gefa málsaðilum kost á að tjá sig um formsatriði áður en hún tekur afstöðu til þeirra nema slíkt sé talið augljóslega óþarft.

39. gr.

Vægi atkvæða ræður afgreiðslu mála fyrir nefndinni. Skal úrskurðarnefndin að öllu jöfnu kveða upp úrskurð sinn innan tveggja vikna frá því að öll nauðsynleg gögn hafa verið lögð fram. Úrskurði skal fylgja rökstuðningur. Úrskurðir nefndarinnar skulu birtir í fullri lengd á vef ISNIC. Einnig skal varðveita samhljóða skriflega niðurstöðu. Ef nefndarmenn komast ekki allir að sömu niðurstöðu skal greina sérstaklega frá niðurstöðu minnihluta. Úrskurði skal varðveita tryggilega í gerðarbók, sem halda má á rafrænu formi. Endurrit úrskurðar skal sent málsaðilum á rafrænu formi.

40. gr.

Auk reglna þessara í heild úrskurðar nefndin á grundvelli þeirrar efnisreglu, að skráður rétthafi verður ekki talinn eiga rétt til ákveðins léns ef öll eftirfarandi atriði eiga við:

 1. Lén er eins og skrásett vörumerki sem orðmerki hjá Hugverkastofu, sem skráð var áður en lénið var skráð.
 2. Sá sem lénið skráði hefur ekki lögmæta hagsmuni af notkun lénsins.
 3. Sá sem lénið skráði var ekki í góðri trú um rétt sinn til lénsins þegar það var skráð.
Lén verður ekki talið hafa verið skráð í góðri trú ef sannað þykir:
 1. að lén hafi verið skráð í þeim tilgangi að selja, leigja eða veita öðrum aðila aðgang að léninu gegn gjaldi sem er sannanlega hærra en sem nemur kostnaði við skráningu og endurnýjun þess, eða
 2. að lén hafi verið skráð í þeim eina tilgangi að hindra samkeppnisaðila í að skrá það tiltekna lén.

X. kafli. Ábyrgð ISNIC.

41. gr.

ISNIC ber ábyrgð á að skráningu léna sé háttað í samræmi við reglur þessar. ISNIC ber ábyrgð á að framkvæma breytingar sem samrýmast reglum þessum og óskað er eftir af rétthafa léns, tengilið rétthafa léns, úrskurðarnefnd léna eða annars þar til bærs aðila.

42. gr.

ISNIC undanþiggur sig fébótaábyrgð vegna tjóns sem rakið kann að verða til dráttar á skráningu tiltekins léns eða höfnunar á skráningu tiltekins léns. ISNIC verður ekki á neinn hátt gert ábyrgt vegna hugsanlegs tjóns sem úrskurðir úrskurðarnefndar eða þ.t.b. aðila geta haft í för með sér. ISNIC verður ekki á neinn hátt gert ábyrgt vegna hugsanlegs tjóns sem rakið verður til þess að léni er lokað eða það afskráð vegna dóms eða lögbanns. ISNIC verður ekki á neinn hátt gert ábyrgt vegna hugsanlegs tjóns sem rakið verður til læsingar léns.

43. gr.

Um ábyrgð fyrirtækisins að öðru leyti vísast í viðskiptaskilmála ISNIC og almenn lög.

Error
Skildu eftir skilaboð og við munum hafa samband næsta virka dag.

Skilaboð móttekin

Veftré
Fara upp