Viðskiptamenn ISNIC spyrja stundum fyrir hvað þeir greiða ISNIC einu sinni á ári. Stutta svarið er að lýsa því hvað gerist ef ISNIC-kerfið hættir að þjóna léninu. Þá hættir tölvupóstur að berast á netföng lénsins, vefsíðan sem hvílir á léninu hættir að birtast notendum og í raun þurrkast tilvera lénsins út af Netinu.
Meginstarsemi ISNIC felst í því að reka nafnaþjónustuna (e. Domain Name System) fyrir höfuðlénið .is, en öll lén þurfa á DNS-þjónustu að halda til þess að finnast á Netinu. Lénið (e. domain) er einföld en snjöll framsetning á ip-tölu þess tækis sem hýsir tölupóst og/eða vefsíðu lénsins, og þótt skipt sé um ip-tölu (hýsingu) helst lénið áfram óbreytt. Fyrirtæki eins og ISNIC eru kölluð Registry en þau stjórna nafnakerfi Netsins sameiginlega. Þar gegnir DNS-kerfið grundvallarhlutverki.
Nafnaþjónusta ISNIC (DNS-þjónustan) vísar öllum fyrirspurnum um tölvupóst eða veffang allra .is-léna eldsnöggt á réttu ip-töluna hvar í heiminum sem hún er staðsett. Þegar lén er flutt milli hýsingaraðila breytist ip-talan en lénið ekki.
Finna má fjölmörg myndbönd á YouTube sem útskýra DNS-kerfið ágætlega fyrir leikmönnum. Eitt af þeim heitir DNS Basics, sem tölvunarfræðineminn Johnson T. Rafallo tók saman.