Þessi vefur er fyrir prófanir. Fara á isnic.is

27. des. 2010

27. des. 2010

Læsing léna - ný þjónusta sem tekur gildi 6. janúar 2011

- þessi frétt var fyrst birt 6. desember sl. -

Þegar deilt er um réttinn til ákveðins léns getur komið upp sú staða að yfirvöld þurfi að skera úr um hvor deiluaðila skuli hljóta þann rétt. Slíkur ferill tekur all langan tíma og því kann að vera nauðsynlegt að hægt sé að koma í veg fyrir að lénið sem í hlut á sé umskráð á þriðja aðila meðan beðið er úrskurðar.
 
ISNIC hefur nú bætt við nýjum þjónustulið í skráningarkerfi .is-léna, sem gefur möguleika á að læsa rétthafaupplýsingum léns meðan á kæruferli stendur (e. registry-lock/dispute-lock) án þess að skerða aðra þjónustu við lénið á meðan á læsingu stendur.

Sá sem fer fram á læsingu léns (læsingarbeiðandi) þarf að greiða læsingargjald og senda inn staðfestar upplýsingar um framlagða kæru, áður en beiðnin er tekin fyrir og eftir atvikum samþykkt af ISNIC. Sá rétthafi sem fyrir læsingu léns verður (læsingarþoli) er eðli málsins samkvæmt fyrst látinn vita af læsingu lénsins eftir að því hefur verið læst. Vinni læsingarbeiðandi málið flyst rétturinn til lénsins sjálfkrafa til hans við innsetningu úrskurðarins hjá ISNIC. Tapi hann hins vegar málinu afléttist læsingin.
 
Eftirfarandi breytingar á skráningarreglum ISNIC hafa verið sendar á póstlista ISNIC. Ein mjög góð ábending hefur þegar borist og verið tekin til greina. Neðangreindar reglur um læsingu léna taka gildi ásamt þjónustunni sjálfri þann 6. janúar 2011. Ábendingar um reglurnar og nýju þjónustuna eru vel þegnar.

Við 1. grein bætist skilgreining

1.1.17 Læst lén
Rétthafa léna sem merkt eru læst í rétthafaskrá ISNIC er ekki hægt að breyta á meðan á læsingu stendur.

Við bætist ný grein nr. 12:
 
12. Læsing léna
 

12.1 Aðilar að ágreinismáli um lén, sem þegar er skráð hjá ISNIC, geta að ákveðnum skilyrðum uppfylltum (sjá 12.4) farið fram á að ISNIC læsi rétthafaupplýsingum léns sem deilt er um. Sá sem fer fram á læsingu er læsingarbeiðandi og sá sem sæta þarf læsingu er læsingarþoli.
 
12.2 Læst lén heldur tæknilegri virkni sinni, en ekki er hægt að skipta um rétthafa þess. Mögulegt er að flytja læst lén milli vistunaraðila, skipta um greiðanda og skipta um tæknilegan tengilið.
 
12.3 Læsingarbeiðandi skráir læsingabeiðni rafrænt hjá ISNIC og greiðir læsingargjald skv. gjaldskrá ISNIC hverju sinni. Samhliða slíkri beiðni þarf að leggja fram afrit af framlögðum kærugögnum til þartilbærs aðila (sjá 12.4).
 
12.4 ISNIC tekur til greina beiðni um læsingu léns, sé hún studd gögnum um framlagningu kæru fyrir
a) íslenskum dómstólum
b) neytendastofu
c) úrskurðarnefnd ISNIC
d) öðrum aðila, sem á hverjum tíma telst bær til að úrskurða í viðkomandi máli.
 
12.5 Læsing léns gildir í 6 mánuði, en fæst framlengd einu sinni til 6 mánaða án nýrrar umsóknar liggi þá fyrir gögn um að mál sé til meðferðar og að niðurstöðu sé að vænta innan 6 mánaða. Sé deila enn óleyst að tólf mánuðum liðnum þarf læsingarbeiðandi að sækja aftur um læsingu á léninu og leggja fram ný gögn sem sýna að deilan sé enn til formlegrar meðferðar hjá þartilbærum aðila.
 
12.6 Læst lén er umskráð á læsingabeiðanda ef
a) læsingarþoli samþykkir að afskrá lénið,
b) læsingarþoli verður ekki við úrskurði eða dómi um að afskrá lénið eða umskrá það á læsingarbeiðanda.
 
12.7 Lén sem skráð er á læsingarbeiðanda í framhaldi af dómi eða úrskurði, telst nýskráð frá þeim degi sem dómnum eða úrskurðinum er framfylgt hjá ISNIC.
 
12.8 Náist sættir milli aðila meðan á læsingu léns stendur, skráir læsingarbeiðandi það rafrænt hjá ISNIC og lýkur þar með læsingu þess sjálfkrafa. Læsingargjald er ekki endurgreitt.

Skildu eftir skilaboð og við munum hafa samband næsta virka dag.
1+3:

Skilaboð móttekin